148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

siðareglur fyrir alþingismenn.

443. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er svo sem miklu við að bæta öðru en því að ég held að í a-liðnum sé reynt að ná vel utan um þetta með þessu orðalagi: „leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum“ o.s.frv.

Hér er farið inn í siðareglurnar á tveimur stöðum eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn átti sig á. Annars vegar er þessi fyrri almenna nálgun í 5. gr. um meginreglurnar og hins vegar er ný grein á eftir 7. gr. þar sem hátternisskyldurnar eru lagðar sérstaklega á menn að þessu leyti.

Ég held að það sé alveg ljóst að með þessu er málið í raun eins breitt og menn telja ástæðu til. Ég er hallur undir þá túlkun að þar með þýði þetta að siðareglurnar bindi menn og að þeir eigi að virða þær hvar sem þeir eru sem slíkir sem þjóðkjörnir fulltrúar á almannafæri.