148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

kvikmyndalög.

465. mál
[16:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir fína yfirferð yfir efnið. Það er ljóst að verið er að byggja þetta frumvarp að miklu leyti á athugasemdum frá hagsmunaaðilum hér á landi, sem og þeirri staðreynd að við þurfum að uppfylla ákveðin skilyrði í EES-samningnum.

Mig langar aðeins að eiga orðastað við hæstv. ráðherra varðandi efnisatriði í 13. gr. sem lúta að heimild ráðherra gagnvart þessari reglugerð, þá ekki síst um forsendur og tilhögun mats þar sem meðal annars skuli líta til jafnrar stöðu karla og kvenna. Ég hef áhuga á því að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur í huga ef hann er búinn að móta sér stefnu. Ég lít þá meðal annars til upplýsinga um að á fyrstu 17 árum þessarar aldar, ég held að tölurnar séu réttar, hafi fjórum af 69 myndum sem hér voru gerðar, þ.e. íslenskum kvikmyndum, verið leikstýrt af konum. Það er töluvert lægra hlutfall en á síðustu áratugum síðustu aldar. Það er ekki hægt að segja að við höfum gengið götuna til góðs fram eftir veg í þeim efnum. Ég hefði áhuga á að heyra hvort hæstv. ráðherra og hennar fólk sé með mótaðar skoðanir um viðbrögð við þessu.