148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

kvikmyndalög.

465. mál
[16:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög brýnt mál sem hv. þingmaður er að vekja máls á. Ég hef mikinn áhuga á því að heyra meira um þetta. Við fórum, í kjölfar þeirrar byltingar sem hefur farið af stað, ansi hratt og örugglega í hlutina varðandi íþróttahreyfinguna. Mér finnst mjög brýnt að í öllum þeim geirum eða þeim iðnaði sem við erum að styrkja af opinberu fé sé þetta skoðað með þessum augum og kannað hvað er á seyði.

Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvort það hefur verið gert í mínu ráðuneyti. En mig langar til að skoða þetta, þ.e. hlutfall þeirra sem sækja um og hlutfall þeirra sem fá, hver niðurstaðan er, og nota þær upplýsingar áfram. Mér finnst mjög mikilvægt að við náum að endurspegla samfélagið okkar þegar við erum að gera kvikmyndir eða taka þátt í íþróttum eða hvað svo sem við erum að gera; að við náum að endurspegla þennan margbreytileika, þennan fjölbreytileika.

Það er eitt af því sem ég leiði líka hugann að þegar við erum að hugsa um brotthvarf úr skólakerfinu. Af hverju hverfa fleiri drengir úr skóla? Þar þarf að skoða frá hinum endanum. Ef komin er upp jaðarsetning af einhverju tagi myndast óróleiki, það myndast gjá á milli þeirra sem eru að móta stefnuna og þeirra sem þurfa að vinna með hana. En mér finnst þetta mjög gott mál og þakka fyrir það.