148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:21]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hafði bara ekki pælt í atriðinu í síðustu spurningu hv. þingmanns. Mér þykir hún mjög áhugaverð. Hlakka til að sjá hvort þetta komi upp í nefnd, en ég geri ráð fyrir að þetta fari til nefndar sem hv. þingmaður er í. Nei, það er rangt hjá mér, hv. þingmaður er ekki lengur í þeirri nefnd ef ég man rétt. En hvað sem því líður þá get ég ekki svarað því, en mér finnst þetta áhugaverð spurning.

Hvað varðar hina, hvernig þetta hafi verið í umræðunni árið 1970 þegar þetta er sett, þá hefur mér sýnst að þegar kemur að þjóðkirkju eða ríkjandi trúarbrögðum í hverri menningu þá verði til sjálfkrafa ákveðin menning lotningar gagnvart tiltekinni stofnun sem er sú vinsælasta á hverjum tíma. Á Íslandi er það hin evangelisk lúterska kirkja, svokölluð þjóðkirkja eða ríkiskirkja eins og ég kalla hana. Í samfélagi þar sem er ekki mikil fjölbreytni í trúmálum og það er ein trúarskoðun sem er á einhvern hátt sjálfsögð í samfélaginu, þá fullyrði ég að það verður ofboðslega mikill ótti við það að stinga nokkurn tímann upp á einhverju sem er gegn hagsmunum þeirrar kirkju eða þess trúfélags. Þetta gerist alveg óháð því hvort það sé kristni eða eitthvað annað, held ég.

Þótt mönnum hafi kannski ekki fundist þetta þægilegt þegar þetta var sett og sjálfsagt hafi ýmsir í þessum sal á þeim tíma hugsað með sér að þarna væri nú ansi langt gengið o.s.frv., þá er ég ekkert viss um — með þeim fyrirvara að ég hef ekki flett upp ræðunum sjálfur — að menn hafi verið mjög gjarnir á að viðra þá skoðun, vegna þess að þegar það er einhver ríkiskirkja þá nýtur hún ákveðins heilagleika, heilagleika sem mér finnst kannski við hæfi í trúarlegum skilningi, en mér finnst það ekki við hæfi gagnvart ríkisstofnun eða stofnun sem ríkið styður sérstaklega. (Forseti hringir.) Þetta er ágiskun mín með þeim fyrirvara að ég hef ekki skoðað ræðurnar. En vegna fyrirspurnar hv. þingmanns þá kannski geri ég það.