148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að þingmaðurinn kallaði þjóðkirkjuna ríkiskirkju þá langar mig kannski að líta aðeins um öxl til þess tíma þegar hún var ríkiskirkja og þegar hún hafði þá yfirburðarstöðu sem enn þá endurspeglast að vissu leyti í lögum. Meðan ríki og kirkja voru algjörlega eitt, þá var kannski eðlilegt að kirkjan hefði fullan aðgang að öllum þeim kostum sem stóðu ríkisvaldinu til boða, þar á meðal landnæði. Síðan hefur ýmislegt breyst og væntanlega á ýmislegt eftir að breytast.

Mig langar að velta kannski tvennu upp við þingmanninn. Það er oft verið að ræða kirkjujarðasamkomulagið svokallað og flókið uppgjör í tengslum við það, en ef við stigjum skrefið enn lengra og færum að einkavæða ríkiskirkjuna þannig að það þyrfti að gera eitthvert endanlegt uppgjör á milli ríkis og kirkju, þyrfti þá ekki að líta til þessara lóða sem hefur verið úthlutað til kirkjunnar, þyrfti ekki að líta til þess húsakostar sem reis meðan sambandið var miklu nánara en það er í dag? Er það ekki hluti af þessu uppgjöri sem mögulega er fram undan?

Ef við hugsuðum þetta enn lengra og færum að horfa á dálítið borgaralegri veröld þar sem ríki og trúarbrögð eru bara aðskilin, þyrftum við samt ekki eftir sem áður að hafa einhvers konar formlegan stuðning hins opinbera við kirkjur og trúfélög eins og önnur félagasamtök og aðrar menningarstofnanir og styðja það (Forseti hringir.) starf sem þar fer fram á einhvern hátt?