148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gæti sjálfsagt haldið sjálfstæða ræðu um spurningar hv. þingmanns en ég greip tvær. Önnur varðar hið svokallaða kirkjujarðasamkomulag sem er að mínu mati mjög óheiðarlegt samkomulag sem var gert milli ríkiskirkjunnar og ríkisins á sínum tíma og fól í sér að ríkið fékk lóðir frá þjóðkirkjunni, ýmsar lóðir eins og Þingvelli, og gegn þessu myndi það greiða laun ákveðið margra presta o.s.frv. að eilífu. Það að mínu mati var ekkert annað en tilraun til að gera það að verkum að það yrði í reynd ógerningur að aðskilja ríki og kirkju fyllilega.

Sumir kirkjunnar menn segja í dag að ríki og kirkja hafi verið aðskilin. Ég tel það vera í skásta falli misskilning, versta falli einfaldan útúrsnúning, vegna þess að svo er ekki. 62. gr. stjórnarskrárinnar sem ég fór yfir áðan er enn þá til staðar og það er enn þá til staðar alls konar mismunun sem leiðir af henni. Ég er á móti henni allri, allri svo ég bara segi það eins og er.

En það er svolítið mikilvægt að hafa það í huga að þetta mál varðar ekki kirkjujarðasamkomulagið. Hér er um að ræða lóðir sem er búið að gefa. Ég fæ ekki séð að það sé hægt að taka það til baka, enda er þar ekki sama sambandið í gangi, einhver samningur í gildi sem þyrfti að rifta. Það er miklu flóknara að fara í kirkjujarðasamkomulagið heldur en þetta. Ég sé ekki að þetta hafi nein slík áhrif. Hérna sé ég fram á að þessu verði hætt, það verði einfaldlega hætt að gefa þessar lóðir. Reyndar er ég ekki alveg með það á hreinu hvað yrði um beiðnir sem hafa borist nú þegar, það er eitthvað sem ég geri ráð fyrir að nefndin þurfi að skoða betur. Nú hef ég ekki tíma því miður fyrir seinni spurningu hv. þingmanns, en hver veit nema við víkjum meira að henni síðar í þessari umræðu.