148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:27]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð. Í andsvörum hans við hv. þm. Andrés Inga Jónsson var kannski tæpt á því helsta sem mig langaði að spyrja þingmanninn út í, en það er allt í góðu.

Mig langaði hins vegar að koma inn á það, þar sem ég fyrir einhverju síðan tók þátt í borgarmálunum, að ég get upplýst um að margir kjörnir fulltrúar sem hafa verið í borgarkerfinu hafa beðið mjög lengi eftir því að Alþingi myndi taka þetta mál til skoðunar. Þó að það sé mjög vel hægt að bera virðingu fyrir og skilja mætavel þá hugsun sem olli því að þessi lög á sínum tíma voru sett, þá hefur kannski framkvæmdin á þeim lögum alla vega undanfarna tvo áratugi u.þ.b. varpað fram mjög mikilvægum spurningum um hvort þetta sé í takt við upphaflegan tilgang laganna og í takt við þá skynjun sem við höfum á trúarlífi Íslendinga í dag. Ég tel að því leytinu til þetta frumvarp mjög gott þótt ekki væri nema til þess að opna málið og umræðuna þótt kannski sé ekki alveg útséð um hvernig það endar. Vil þá upplýsa um það, þar sem hér voru tilteknir tveir þingflokkar, að ég veit t.d. að borgarstjórnarhópur Sjálfstæðisflokksins hefur opinberlega kallað eftir því lengi að Alþingi taki þetta mál til sín.

Í síðustu andsvörum var komið inn á þau trúfélög sem hafa nú þegar fengið lóðir. Nú er auðvelt að hafa verið borgarmegin og óskað eftir þessu en núna þegar maður er hér inni þá koma upp alls konar spurningar. Mig langaði að fá að heyra örlítið betur frá hv. þingmanni hvernig hann hugsar sér þetta með þá sem hafa þegar (Forseti hringir.) fengið lóð og jafnræði í því sambandi.