148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:32]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Það sem ég held að verði vandmeðfarið í þessari umræðu og þessari löggjöf er að ástæðan fyrir því að það verið að ræða þetta, ástæðan fyrir að þessi staða er komin upp er sú að Reykjavíkurborg sérstaklega gaf tóninn fyrir tveimur áratugum síðan um að vilja gæta jafnræðis og kaus að skoða skilgreininguna þröngt á kirkjunni sem kveðið er á um. Í því samhengi er vert að velta upp til framtíðar litið í raun samkeppnisforskoti þeirra trúfélaga sem hafa fengið lóðir í gegnum áratugina. Síðan er sett stopp og ekkert verður í boði fyrir mögulega þau trúfélög sem á eftir koma.

Þar sem grunnurinn að því að við erum að ræða þetta er jafnræði þá held ég að það sé vert hafa þetta í huga í nefndarvinnunni sem hér er boðuð og er það vel.

Ég ítreka að ég held að þessi löggjöf sé um margt barn síns tíma. Það er ekkert að því, löggjöf úreldist og breytist með samfélaginu. Við eigum bara að fagna því. En mínar heillaóskir inn í nefndarvinnuna, þar sem ég mun ekki taka þátt í henni, eru að passa að tilgangurinn sem lagt var upp með gleymist ekki á leiðinni.