148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka bara ábendinguna og geri ráð fyrir því að nefndin fari yfir það allt saman.

Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður segir að þetta sé barn síns tíma. Mig langar aðeins að gera meiri grein fyrir því, tilefninu, og kannski ég reyni að svara seinni spurningu hv. þingmanns Andrésar Inga Jónssonar í leiðinni.

Á sínum tíma var kristin trú sjálfsögð, hún var bara hluti af því sem maður átti að trúa, alveg eins og í dag þá á maður að trúa því að íþróttir séu hollar og maður á að trúa því að aðalmarkmið ríkisins sé að tryggja lýðheilsu og það séu alltaf tromprök. Sem betur fer breytast tímarnir eins og dæmin sanna.

Ég vona að það verði fleiri breytingar á fleiri málasviðum, en á sínum tíma var trúarlíf Íslendinga einsleitara og þá skil ég þetta aðeins betur. Ég hugsa að fólkið á þessum tíma hafi svolítið hugsað þetta eins og það væri verið að byggja skóla eða eitthvað álíka sjálfsagt. Þetta var bara hluti af andlegum grunnþörfum mannkyns á sínum tíma.

Eins og ég segi, tímarnir breytast sem betur fer, og nú höfum við komist að þeirri niðurstöðu, vona ég, að þetta sé ekki alveg þannig lengur heldur séu trúar- og lífsskoðanir eitthvað persónulegt og tilheyri hverjum og einum og ríkið eigi ekkert að vera að passa það sérstaklega.

Að því sögðu þá er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér við það að ríkið styðji við alls konar starfsemi, jafnvel trúarlega starfsemi, svo fremi sem stuðningurinn er á jafnræðisgrundvelli, svo fremi sem það sama gengur yfir alla. Það er aðallega það sem mig langar til þess að laga með því að taka burt þessa klausu, ég vil losna við þessa tilteknu tegund af hugsanlegri mismunun. Það dugar mér að hún sé hugsanleg. Það eru bara tvær leiðir, það er að skilgreina þetta þrengra í sambandi við þjóðkirkjuna sem ég tel vera ranga leið, eða afnema þessa grein (Forseti hringir.) og það er leiðin sem ég tel að við eigum að fara.