148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þrjú atriði, örsnöggt. Komið var inn á það í flutningsræðu að hentugt hefði verið að hafa fleiri en einn flutningsmann. Þetta er þá í annað skipti á þessu þingi, sem ég veit alla vega um, að það hefði verið heppilegt. Það var einnig í málinu um aðgengi að stafrænum smiðjum. Þar vorum ég og hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir bæði, ég túlka það alla vega þannig, 1. flutningsmaður en urðum að velja. Bara af því að ég kom með hugmyndina á undan var ástæðan fyrir því að ég var 1. flutningsmaður á því frumvarpi. Að öllu öðru óbreyttu ættum við, samkvæmt þeirri vinnu sem við lögðum í frumvarpið, bæði að vera 1. flutningsmaður.

Mig langaði einnig að skjóta því að að við erum að ræða þingmannamál. Eins mikið og ég vildi hafa klárað þetta þingmannamál, enda mjög þarft, þá liggur annað þingmannamál í miðri 2. umr. sem mér finnst að við ættum að reyna að klára fyrst.

Aðeins efnislega um þetta. Ég var ferðamaður í Barcelona fyrir nokkrum árum. Þar eru einstaklega margar kirkjur og mjög íburðarmiklar. Þar fer maður í sérstakar ferðir til að skoða kirkjur, sem er mjög merkilegt út af fyrir sig. En þá fór ég að velta því fyrir mér hvers vegna fólk legði svona gríðarlega mikið á sig til að byggja kirkjur eða tilbeiðsluhús eða hvað það má vera; af hverju ekki sama kraft í skóla- eða heilbrigðiskerfi? Mér finnst það svo augljós samfélagsbót að einbeita okkur frekar að því að byggja upp skóla og heilbrigðisstofnanir en kirkjur. Að því leyti til myndi ég vilja senda það út í alheiminn að við ættum að huga betur að þeirri skyldu okkar; ansi miklir peningar fara í þessar trúarsamkomur sem alla jafna gætu, að mínu viti, bara verið ágætisfélagsheimili, fjölnota. En það er bara mín skoðun. En mér fannst þetta áhugaverð pæling sem flaug í hausinn á mér þegar ég skoðaði þessar kirkjur og íhugaði á sama tíma ástand heilbrigðis- og menntakerfisins hér heima.