148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hér hljóðs aðallega vegna þess að ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um fyrirspurnir. Ekki er komið inn á það í greinargerð með þessu frumvarpi en mér þykir gagnlegt fyrir umræðuna að minna á að á 144. löggjafarþingi svaraði innanríkisráðherra fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um lóðir fyrir trúar- og lífsskoðunarfélög. Þar var spurt sérstaklega, og voru konkret dæmi, um tvær nýbyggðar kirkjur, annars vegar Guðríðarkirkju og hins vegar Lindakirkju, sem þær tvær sóknarkirkjur sem byggðar höfðu verið tíu árum þar á undan. Ráðherra var beðinn um að teikna upp hvaða áhrif brottfall 5. gr. hefði haft á þær tilteknu kirkjur. Ráðherrann bendir á að fyrir hvora kirkju hefði sveitarfélagið orðið af í kringum 15 millj. kr. í gatnagerðargjöld. Þetta er afslátturinn sem trúfélög fá með þessu. Og í ofanálag væri lóðaleiga áætluð á bilinu 345–372 þús. kr. fyrir þessar kirkjur. Eitthvað sem kemur árlega í sjóði sveitarfélaganna, en gerir það ekki vegna þessarar greinar.

Ég átta mig á að það er kannski ekki bein spurning í þessu en mig grunaði að fyrirspyrjandi ársins hefði áhuga á að vera bent á þessa gömlu góðu fyrirspurn.