148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[17:54]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst forláts á því að ég náði ekki að spyrja fyrri tvo ræðumenn sem eru líka flutningsmenn á frumvarpinu út í þetta atriði þannig að það atriði sem ég ætla að spyrja um kom ekki beinlínis fram í ræðu hv. þingmanns. Hv. 1. flutningsmaður Helgi Hrafn Gunnarsson getur þá tekið upp þykkjuna og hnýtt aftan við umræðuna á eftir og svarað spurningunni í sérræðu ef honum býður svo við að horfa.

Í tillögugreininni er gert ráð fyrir að fella út 5. gr. laga um Kristnisjóð. Flutningsmenn leggja upp með að þar með hvíli ekki í rauninni lengur sú skylda á sveitarfélögum að skaffa lóðir undir trúfélög og lífsskoðunarfélög líka. Þá kemur upp spurning sem ég hef aðeins verið að velta fyrir mér. Með því að gera þetta á þessum tímapunkti, án þess að hafa einhverjar mótvægisaðgerðir gagnvart þeim trúfélögum sem ekki hafa þegar fengið þessa fyrirgreiðslu, erum við þá ekki að festa í sessi þá stöðu sem er í dag og þar með að raungera sterkari stöðu þjóðkirkjunnar í þessu sambandi en annarra trúfélaga? Talar það ekki gegn markmiðum frumvarpsins að búa til þessa stöðu? Þarf þá ekki jafnvel að hafa einhvers konar sólarlagsákvæði eða eitthvað þess háttar sem gerði öðrum trúfélögum kleift að ná sér í sömu gæði áður en lögin verða felld úr gildi?