148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[18:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Það virðist nú sem þetta mál einkennist af því, og verður að telja til lýta á málatilbúnaði, að lítið sé gert úr þeirri staðreynd að Íslendingar hafi verið kristin þjóð í 1000 ár. Saga okkar og menning einkennist af þessari staðreynd. Einungis Alþingi, stofnað 930, er eldri stofnun í landinu en kirkjan, en kristni var tekin upp hér eins og menn þekkja með sögufrægum hætti á Alþingi á Þingvöllum árið 1000 samkvæmt hefðbundinni söguskoðun, en 999 samkvæmt niðurstöðu Ólafíu Einarsdóttur í doktorsritgerð frá sjöunda áratug liðinnar aldar, sem rituð var í Svíþjóð.

Það er lagt nokkuð upp úr því í skýringum með þessu frumvarpi að það kunni að vera hætta á árekstri á milli tveggja greina stjórnarskrárinnar, þ.e. 62. gr. og 65. gr., annars vegar um trúfrelsi og hins vegar um þjóðkirkjuna. Auðvitað verða lögfróðir að fjalla um þetta efni og munu sjálfsagt gera í framhaldinu. Þó er rétt að geta þess að það er tekið fram af hálfu flutningsmanna að þetta atriði sé umdeilt. Það er einnig þannig, herra forseti, að það gætir eilítið neikvæðs tóns, verð ég að leyfa mér að segja, í málatilbúnaði. Það virðist sem að einhverju leyti sé haldið áfram með miður hófstillta umræðu sem spannst hérna í kringum borgarstjórnarkosningar fyrir fjórum árum. Það er talað um samfélagsnúning og hatursfulla orðræðu án þess að dæmi séu nefnd. Auðvitað er það svo, herra forseti, svo maður orði það bara beint út, fullt af vanstilltu fólki sem í krafti samfélagsmiðla samtímans tjáir sig með hætti sem mörgum þykir miður æskilegur og miður sæmilegum og það er auðvitað miður. Að umræða um þetta eigi erindi inn í þetta mál verð ég að segja að ég átta mig ekki alveg á til hlítar.

Mig langar að vitna í þekktan og virtan fræðimann, prófessor Davíð Þór Björgvinsson, sem nú er dómari við Landsrétt og varaforseti réttarins. Hann hefur fjallað um þessi mál á eigin vefmiðli í grein sem heitir „Um trúfrelsi og trúariðkun sem grundvallarmannréttindi“ sem birtist 2. júní 2014. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna til þessarar greinar í tveimur atriðum. Í fyrsta lagi segir höfundur að hvorki mannréttindasáttmálinn né stjórnarskráin tryggi trúfélagi óskoraðan rétt til að byggja trúarlegt húsnæði í Reykjavík, „að svo miklu leyti sem skorður við því leiða af almennum reglum og mismuna ekki trúarbrögðum án gildra ástæðna og að teknu tilliti til sérstöðu þjóðkirkjunnar lögum samkvæmt“.

Höfundur segir síðar í sömu grein: „Enn síður ber opinberum aðilum skylda til að láta trúfélögum í té lóðir án endurgjalds til að byggja bænahús,“ — eins og það er orðað — „en kjósi yfirvöld að gera það þá eiga öll trúfélög (a.m.k. þau sem eru virk og hafa tilskilinn fjölda virkra meðlima) að sitja við sama borð, að teknu tilliti til mismunandi stærðar safnaða og mismunandi þarfa þeirra af slíkum ástæðum o.s.frv. Þannig leiðir ekki af skyldu til að gæta jafnræðis að heimila beri trúfélögum að byggja bænahús sem að rúmmetrafjölda eru á pari við Hallgrímskirkju!“ Þarna lætur höfundur upphrópunarmerki standa í lok setningar.

Það er rétt að nefna það sömuleiðis, herra forseti, að þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort afhending á eignum sveitarfélaga, þar með talið lóðum, í þessu skyni sé eða hafi alltaf verið studd nægilegum lagalegum heimildum um meðferð opinberra eigna. Ég verð að leyfa mér að segja að það er nokkuð miður að þetta atriði skuli ekki hafa fengið ítarlegri umfjöllun. Kannski verður þetta mál til þess að þessi spurning verði nánar skoðuð og væri það vel.