148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[18:08]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts, ég gerði ráð fyrir að ræða hv. þingmanns yrði aðeins lengri. Hv. þingmaður taldi að hér væri lítið gert úr þeirri staðreynd að Íslendingar hefðu verið kristin þjóð í 1000 ár. Ég ætla bara fyrst að gera athugasemd við hugtakið kristin þjóð. Þjóðir eru samansafn af einstaklingum, þjóðir eru ekki kristnar eða trúlausar, einstaklingar eru kristnir eða trúlausir. Hv. þingmenn geta svo sem verið ósammála um það, það gildir einu. Kem ég mér þá yfir í punkt í sambandi við þetta: Það kemur þessu frumvarpi einfaldlega ekkert við. Ég sé ekki alveg hvernig hv. þingmaður myndi fá það út að vegna þess að íslensk saga sé vissulega að stærstum hluta kristin þýði það, eða að það sé á nokkurn hátt skynsamlegt eða sanngjarnt, að sveitarfélög þurfi að gefa kirkjum eða trúarstofnunum ókeypis lóðir samkvæmt lögum. Ég sé ekki samhengið þarna á milli. Ég skal nú karpa við hv. þingmann um kristnu þjóðina inni í matsal á eftir ef hann hefur áhuga á því.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Varð hann ekki var við samfélagsnúning og neikvæðan tón, neikvæðar umræður og hatursfulla umræðu, í kringum kosningabaráttuna 2014 þegar kom að byggingu mosku? Mig langar ekkert að fara með einhver dæmi hér í pontu og endurtaka það sem sagt var í þeirri kosningabaráttu. Ég gæti svo sem farið og leitað á netinu eflaust, mér finnst það óþarfi vegna þess að ég upplifði það mjög skýrt, mjög sterkt. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi ekki í alvörunni upplifað það á neinn hátt.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann: Er hann þeirrar skoðunar að þessi lög ættu að vera þannig að þau vörðuðu bara almennar kirkjur, kristnar kirkjur, en ekki trúarhof eða tilbeiðsluhús annarra safnaða sem ekki væru kristnir?