148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[18:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er alveg sammála um að við getum sem best rætt utan þingsalar hin fínni blæbrigði hugtaksins kristin þjóð. Ég hygg að Íslendingar átti sig fyllilega á merkingu þess hugtaks en (Gripið fram í.) vegna spurninga hv. þingmanns, hvort ég hafi ekki orðið var við, eins og hann orðar það, hatursfulla umræðu. Jú, auðvitað tók ég eftir því að það spunnust frekar neikvæðar umræður — hatur er ein af dauðasyndunum sjö ef ég kann að fara rétt með; því orði er ætlað að lýsa sterkum tilfinningum og ég skal ekki fella neina dóma um það.

Við þekkjum það auðvitað, hv. þingmaður og ég og aðrir viðstaddir, að víða gætir óþarflega neikvæðrar umræðu og betur færi á því að menn gættu hófs og vönduðu sig betur en sums staðar hefur sést. Við munum ekki leysa það og heldur ekki í þessu máli. Varðandi hitt atriðið sem hv. þingmaður nefnir, hvernig beri að skilja ákvæði 5. gr. laga um Kristnisjóð, þá er þar talað um kirkjur. Ég ætla mér ekki þá dul að fara að ástunda lögskýringar hér í ræðustól Alþingis en ég get hins vegar sagt að fyrir mig er þetta lagaákvæði alveg skýrt, það er verið að tala um kirkjur og kirkjur eru heiti á samkomuhúsum kristins fólks. Ég hygg að ákvæði stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna renni stoðum undir þá túlkun.