148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[18:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Það er von að hv. þingmaður spyrji hvernig hlutirnir eigi að vera. Það hefur verið tekin ákvörðun um það hvernig hlutirnir eigi að vera. Það er í stjórnarskránni. Þjóðkirkjan nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég hef fulla samúð með því sjónarmiði hv. þingmanns, hann kann að vilja sjá ýmsa hluti með öðrum hætti en þeir eru skráðir í gildandi stjórnarskrá, þar á meðal það ákvæði sem lýtur að íslensku þjóðkirkjunni.

Hann hefur fullan lýðræðislegan rétt og meira að segja mjög góða aðstöðu sem þingmaður til þess að beita sér fyrir breytingum í því efni. Þetta held ég að sé höfuðatriði málsins. Að meðan þetta ákvæði er í gildi og meðan því hefur ekki verið breytt nýtur þjóðkirkjan sérstakrar stöðu, hún nýtur sérstakrar verndar íslensku stjórnarskrárinnar. Það er auðvitað eitthvað sem menn hljóta að virða.