148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

Kristnisjóður o.fl.

269. mál
[18:19]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða samkomulag ríkis og kirkju og hvað mér finnst persónulega má raunverulega einu gilda, samkomulagið er í gildi.(Gripið fram í.) Í framhaldi af því þá getum við rætt það hvort þetta afgjald sé að eilífu. Þá getum við líka rætt hvort virði eignanna sem falið var í vörslu ríkisins sé að eilífu líka og hvort þetta sé siðferðilega rétt í þeim skilningi. Það er kannski önnur umræða. Svona eru lögin, þetta er tilurð þeirra og þetta er samkomulagið.

Samkomulagið um þennan rétt kirkjunnar til að byggja á landinu er réttur hennar til að byggja á sínu eigin landi vegna þess að upphaflega samkomulagið var það að ríkið varðveitti eignirnar og átti að selja og leigja þær út og standa þar með straum af embættislaunum presta og ýmsu öðru. Það var samkomulagið sem gert var. Þetta snýst ekki um það að núna sé ríkið að gefa kirkjunni eignir. Eignirnar voru kirkjunnar og eru það í skilningi þeirra laga.