148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

287. mál
[19:04]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt að áfengisneysla á mann hefur aukist allnokkuð í hreinum vínanda á undanförnum árum eins og hv. þingmaður bendir á. Tvennt er ágætt að hafa í huga þar. Ég held að flest okkar séum sammála um að áfengismenning Íslendinga er allt önnur og mun betri í dag en hún var fyrir 20 eða 40 árum síðan. Það er hin hóflega neysla sem hefur aukist á kostnað ofneyslu, sem er til mikilla bóta.

Svo held ég að sé líka ágætt að hafa í huga þegar við tölum um þessa tölfræði að hingað til lands streyma um 2 milljónir ferðamanna á ári sem hefur held ég allnokkur áhrif á þessar neyslutölur. Það mætti útfæra það nokkurn veginn þannig að hér séu um það bil 70 þús. manns í fríi á hverjum degi. Við vitum öll að við drekkum örugglega talsvert meira áfengi erlendis en heima fyrir dags daglega. Ég held að ferðamennirnir okkar geri það með sama hætti. (Forseti hringir.) Ég sé hins vegar að ég er sprunginn á tíma. Ég verð að koma að seinni spurningunni í síðara svari.