148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

287. mál
[19:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég rak nefnilega augun í að í a-lið 2. mgr. 4. gr. áfengislaga er tilgreint, með leyfi forseta:

„að framleiða áfengi til einkaneyslu eða sölu“.

Og er þar um að ræða hvernig skuli refsa samkvæmt 27. gr. þeirra laga. Í frumvarpi hv. þingmanns og flutningsmanna kemur hið sama fram í b-lið fyrstu efnisgreinar 17. gr. frumvarpsins, þar sem segir, með leyfi forseta:

„hann framleiðir áfengi til einkaneyslu og sölu þótt ekki sé í atvinnuskyni“.

Mér þótti þessi breyting áhugaverð. En ég spyr þá bara hv. þingmann, svo að við förum ekki í mikla lagatækni hér, hvort hann sé opinn fyrir því að innleiða breytingar í þetta frumvarp sem myndu endurspegla það að afnema bann við heimabruggi til einkaneyslu, samanber frumvarpið sem hefur verið lagt fram áður.