148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvalveiðar.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef þá sannfæringu sem stjórnmálamaður að mikilvægt sé að stjórnvöld fylgi á hverjum tíma góðri stjórnsýslu. Í því felst að þegar gefin er út reglugerð til fimm ára sé því fylgt þrátt fyrir að skipt sé um ríkisstjórn. Þetta ætti ekki að koma hv. þingmanni á óvart því að hún veit að ef það er eitthvað sem ég hef talað fyrir sem stjórnmálamaður þá er það það að við séum ekki í stöðugum kollsteypum með nýjum ríkisstjórnum heldur undirbyggjum við ákvarðanir okkar vel og vinnum stefnumótun sem við getum byggt þær ákvarðanir á.

Já, Vinstri græn standa við sína stefnu.

Ég vil síðan ræða það hér að hv. þingmaður vitnaði til samþykktar frá 2015. Á landsfundi okkar þá var samþykkt ályktun um að stækka griðasvæði hvala og líka talað um verndun dýralífs í landinu. Griðasvæðið var stækkað í tíð hv. þingmanns sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Sú ákvörðun hefur ekki verið dregin til baka enda styðjum við þá ákvörðun.

Enn og aftur: Við aðhyllumst ekki stöðugar kollsteypur með hverri ríkisstjórn. Hins vegar liggur það fyrir, og svarið getur ekki orðið skýrara, að áður en ný ákvörðun verður tekin þarf að fara fram það mat sem ég nefndi hér áðan sem byggist á sjálfbærni.