148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

úttekt á barnaverndarmáli.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Tilgangurinn með óháðri úttekt er að fá óháða sérfræðinga sem koma utan að til að fara yfir öll gögn þessa máls og kanna hvort málsmeðferð barnaverndarnefnda, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis geti talist ásættanleg og hafin yfir vafa. Það er tilgangurinn.

Þegar hv. þingmaður spyr mig hvort það að ég láti slíka úttekt fara fram sé staðfesting á því að ég telji að eitthvað sé ekki í lagi er það að sjálfsögðu ekki rétt og furðuleg ályktun að draga. Ástæða þess að ég set þessa úttekt af stað er sú að mér finnst mikilvægt, og ekki síst í jafn viðkvæmum málaflokki og hér um ræðir, að mál séu einmitt hafin yfir vafa.

Ég get ekki, út frá þeim fréttum sem ég hef lesið, lagt neinn sjálfstæðan dóm á það enda hef ég ekki aðgang að þessum þúsund blaðsíðum af gögnum eða hvað það er sem liggur fyrir. Ég get ekki lagt neinn sjálfstæðan dóm á það hvort allt hafi verið kórrétt eða ekki rétt. Að sjálfsögðu ekki. (Forseti hringir.) Þess vegna látum við þessa úttekt fara fram. Það hefur síðan komið fram að niðurstaða stjórnvalda hvað varðar framboðið sem hv. þingmaður nefnir, (Forseti hringir.) niðurstaða þessarar úttektar getur haft áhrif á það.