148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

framboð Íslands til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka umhyggju hv. þingmanns í garð ríkisstjórnarinnar og get sagt að almennt er bara mjög góð sátt í henni. Hann getur sofið rólegur yfir stöðunni innan hennar. Hvað varðar hins vegar það mál sem hv. þingmaður spyr um — hann spyr hvort ég sé sátt við embættisfærslur hæstv. félagsmálaráðherra. Ég ber fullt traust til hæstv. félagsmálaráðherra. Ég tel ekkert hafa komið fram sem bendir til þess að hann hafi gert neitt rangt í þessu máli. Hins vegar hefur hann sjálfur óskað eftir því að óháð úttekt fari fram — frá upphafi málsins til loka þess — þannig að við getum gert eins vel grein fyrir málinu og mögulegt er. Af hverju er það mikilvægt? Ég ætla að leyfa mér að segja það einu sinni enn. Það er hlutverk stjórnvalda og Alþingis að tryggja að það kerfi sem við búum til í kringum okkar viðkvæmustu borgara, börnin, sé í lagi, að til þess sé borið traust. Ef ástæða er til að fara ofan í saumana á málum (Forseti hringir.) til þess að fá allar staðreyndir upp er það skylda okkar að það verði gert. Og það verður gert.