148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

starfsemi Airbnb á Íslandi.

[15:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta er umræðuefni sem við ræðum reglulega og mörgum finnst ekki ganga nógu vel að laga til. Ég hef lesið fjölmargar úttektir og tölur um það hvert umfang þessarar starfsemi er. Ég hef hins vegar aldrei fengið svör við því hvernig og hvort hægt sé að grisja út þá starfsemi sem er á Airbnb, á að vera skráð og er ekki skráð. Í þessum tölum, þar sem eru auðvitað mjög háar fjárhæðir, er til að mynda einhvern veginn skellt saman þeim sem eru að leigja út húsnæði og skrá ekki 90 dagana, þeim sem eru væntanlega þá að skrá sig en leigja langt umfram 90 dagana og ættu því að vera inni í hefðbundnu atvinnurekstrarkerfi og svo þeim sem reka t.d. gistiheimili víða um land, skila öllu sínu en eru skráðir á Airbnb. Það sem ég myndi ekki vilja sjá er að við færum að tala um Airbnb í heildina sem ólöglega og vonda starfsemi. Við erum með gistiheimili sem eru kannski með sína litlu heimasíðu en gætu ekki náð til alls þess fjölda sem þau gera án þess að vera skráð á Airbnb; selja fullt af gistinóttum í gegnum Airbnb en eru samt að skila sköttum og skyldum.

Ég ætla hins vegar að vera alveg skýr með það að við þurfum að gefa í þegar kemur að eftirlitinu. Við höfum verið að bregðast við með þessu regluverki og það þarf sífellt að vera í endurskoðun rétt eins og það er alls staðar annars staðar, held ég, í veröldinni og sérstaklega í stóru borgunum. Ég segi bara: Það er stundum verið að tvítelja og þrítelja.

Þessi skekkja í samkeppninni — ég er alveg skýr með það að auðvitað verðum við að vera með samkeppnisumhverfi sem er sanngjarnt. Það er ekki hægt að segja við fólk að það eigi vinsamlegast að greiða aukaskatta og -skyldur og -gjöld en horfa síðan upp á allt of marga gera það ekki. Ég er alveg skýr með það hvar ég er í liði þar, ég segi bara: (Forseti hringir.) Airbnb er komið til að vera. Regluverkið utan um það er það sem skiptir öllu máli. Ég á fund eftir helgi með sýslumönnum og skattinum þar sem við erum að fara nákvæmlega yfir hvernig framkvæmdin er og hvað við getum gert til úrbóta.