148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

starfsemi Airbnb á Íslandi.

[15:45]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt að við myndum auðvitað vilja sjá miklu meiri skráningu en nú er. Ég nefni samt að skráningin er að aukast. Ef ég skildi hv. þingmann rétt nefnir hann þær skráningar þar sem fólk skráir 90 daga. Ég nefni aftur þá sem eru í atvinnurekstri og eru bara með sín rekstrarleyfi hvað það varðar en skrá sig síðan inn á Airbnb-síðuna til að ná til miklu stærri markhóps.

Lykilatriðið er að fylgjast með umfangi hvers og eins, þ.e. dagafjölda. Ég segi þá: Það hlýtur að vera hægt að gera með tvennum hætti, annars vegar með upplýsingum frá Airbnb og hins vegar vettvangseftirliti. Þetta hlýtur þá hvort tveggja að koma til skoðunar en það er ekki mjög einfalt. Það er ekkert metnaðarleysi að vera að reyna að bregðast við breyttum veruleika. Það þarf enginn að efast um að ég sé talsmaður sanngjarnrar samkeppni þar sem menn verða að sitja við sama borð. Ég átta mig á að svo er ekki þegar þetta er svona. (Forseti hringir.)

Ég segi samt líka: Ég hef ekki fundið þá borg eða land sem hefur leyst allar áskoranir sem snúa að Airbnb. Og það höfum við ekki heldur gert.