148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

eftirlitshlutverk þingsins.

[15:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Maður hefur svo oft staðið hérna í þessum ræðustól og talað um eftirlitsskylduna sem þingið hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu og að upplýsingaskyldan sem framkvæmdarvaldið, ráðherrar, hefur gagnvart þinginu sé ekki uppfyllt, það sé verið að brjóta gegn henni. Ráðherra leggi ekki fram þau gögn sem þarf þannig að Alþingi geti tekið upplýsta ákvörðun í þeim málum.

Við erum kominn á þann stað að þetta gengur ekkert lengur. Þá er það spurning hvað við eigum að gera. Eitt sem við getum gert er að beina því til forseta, eins og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir hefur gert, að þessum lögum sé framfylgt, hann er ábyrgur fyrir því að lögum um þingsköp sé framfylgt, lögum sem segja að það eigi að upplýsa okkur þingmenn þannig að við getum tekið upplýsta afstöðu í málum. Það er forseti þingsins sem ber ábyrgð á því.

Ef þetta fer ekki að lagast þurfum við þingmenn að fara að taka okkur saman um að taka saman málsatriði, taka saman minnisblað og kvartanir og senda formlega á forsætisnefnd. Þá verður forsætisnefnd að taka tillit til þess. (Gripið fram í.) Jafnframt þarf að taka málið upp, eins og Þorgerður K. (Forseti hringir.) Gunnarsdóttir nefnir, í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hefja frumkvæðismál, þarft ekki nema þrjá til, (Forseti hringir.) til að athuga hvort ráðherra sé að brjóta lögin. Þetta er komið gott.