148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

eftirlitshlutverk þingsins.

[15:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að rifja aðeins upp ræðu mína um störf þingsins í síðustu viku af því að hún snertir þetta mál dálítið hérna, a.m.k. félagsmálaráðherra, fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar áðan um fundinn 9. apríl sl. og fyrirspurn hv. þingmanns þá um hálfan lífeyri. Þar kom fram að sá fundur sem ráðherra er væntanlega að vísa í hafi verið kl. 14, einum og hálfum klukkutíma áður en fyrirspurn hv. þingmanns var borin upp. Áðan kom fram í svari ráðherra að sá fundur hefði verið eftir fyrirspurnatímann. Mér finnst skipta dálitlu máli að í svari við upprunalegri fyrirspurn hv. þingmanns er sagt að málið sem á að taka á þessu sé alveg að koma til þingsins, ef ekki komið, (Forseti hringir.) þegar vinnsla við það hófst einum og hálfum klukkutíma áður en svarið var gefið.

Það er augljóslega ekki satt að málið hafi verið rétt ókomið, ef ekki þegar komið, til þingsins. Ég vil bara minna á (Forseti hringir.) að þetta er hluti af því heildarsamhengi sem við þurfum að tala um varðandi upplýsingaskyldu ráðherra.