148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Þó að það heyri ekki með beinum hætti undir mig sem forsætisráðherra er þetta auðvitað stórpólitískt mál sem heyrir undir alla ríkisstjórnina og þingið allt. Ég vil byrja á því að segja að sá starfshópur sem skipaður var um hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, er leiddur af Lárusi Blöndal, sem sömuleiðis er stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins. Þar sitja sérfræðingar; Guðjón Rúnarsson héraðsdómslögmaður, Guðrún Ögmundsdóttir hagfræðingur, Kristrún Tinna Gunnarsdóttir hagfræðingur og Sylvía Kristín Ólafsdóttir verkfræðingur. Þau hafa m.a. átt viðræður við stjórnmálaflokkana til þess að safna í sarpinn og heyra áherslur ólíkra flokka.

Hugsunin á bak við þetta verkefni er við getum síðan á vettvangi stjórnmálanna tekið umræðu sem byggir á meiri stefnumótunarvinnu en við höfum áður séð. Ástæðan fyrir því að við vildum fara þessa leið er sú að við áttum töluvert samtal hér á síðasta þingi, m.a. innan efnahags- og viðskiptanefndar, um fjármálakerfið og hvert við vildum stefna með það. Það var skýr sannfæring mín að við þyrftum að taka afstöðu til þess með einhverjum hætti hvað við vildum ganga langt varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hér réttilega, séríslenskar reglur um íslenska fjármálamarkaðinn. Hvar teljum við að evrópska regluverkið, sem við erum hluti af með því að vera hluti að EES-svæðinu, sé fullnægjandi og hvar viljum við ganga lengra?

Vinna þessa starfshóps stendur yfir en hann mun væntanlega ekki skila af sér fyrr en í lok september. Sérfræðingarnir hafa upplýst fjármálaráðuneytið um það. Sendar hafa verið umfangsmiklar beiðnir til aðila um að koma sínum sjónarmiðum að í vinnunni, m.a. hafa verið sendar beiðnir til Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins, bankanna, Samkeppniseftirlitsins o.fl. Við munum vafalaust heyra sjónarmið á borð við þau sem hv. þingmaður nefndi, sem eru þau að miklu fleiri aðilar séu komnir í fjármálastarfsemi en bara hefðbundnir bankar. Það regluverk hins vegar sem við höfum verið að innleiða, þetta samevrópska regluverk, snýst til að mynda um fjármálafyrirtækin. En síðan erum við komin með fjármálastarfsemi í öðrum fyrirtækjum sem regluverkið nær ekki utan um.

Ég átti ágætissamtal við hv. þm. Smára McCarthy í síðustu viku um sýndarfé. Nú er á leiðinni inn í þingið lagafrumvarp sem taka mun sérstaklega á notkun sýndarfjár í hraðbönkum. Við erum þegar komin með fyrsta hraðbankann sem er að sýsla með sýndarfé. Ég tek það sem dæmi hér af því að það er rétt sem hv. þingmaður segir, þróunin er hröð og það er bara eðlilegt að hann varpi upp spurningum um hvernig við eigum að halda í við þá þróun með stefnumótun.

Ég vil þó segja að við þurfum auðvitað að taka afstöðu til tiltekinna hluta sem ekki eru hluti af hinu samevrópska regluverki. Hv. þingmaður nefnir eiginfjárhlutfall, sem margir telja að sé einn helsti styrkleiki bankanna til þess að mæta sveiflum í efnahagslífi, það sé hið háa eiginfjárhlutfall sem við eigum í íslenskum bönkum. Ég vil nefna aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi. Í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem hv. þingmaður sat nú í sem ráðherra, var sett af stað vinna við að skoða kosti og galla þess. Þar hefur Evrópusambandið ekki náð samstöðu innan sinna raða um að setja eina reglu um þau mál. Ég tel mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld taki afstöðu til þess. Viljum við aðskilnað? Viljum við fullan aðskilnað? Eða viljum við girðingar innan fjármálakerfisins sem aðskilja þetta með einhverjum hætti, sem ég tel vera leið sem við gætum náð saman um hér á vettvangi Alþingis?

Ég vil nefna eignarhald. Hversu gagnsætt og opið á eignarhald fjármálafyrirtækja að vera? Ég hef sjálf lagt það til að við tökum fyrir eignarhald á fjármálafyrirtækjum á lágskattasvæðum. Það sé hluti af því að reka hér heilbrigt og eðlilegt fjármálakerfi. Þá þarf ég líka að svara því og þingið með mér hvað við segjum um þá aðila sem stunda fjármálastarfsemi en eru ekki undir regluverki um fjármálafyrirtæki. Hvernig ætlum við að koma í veg fyrir að þar sé eignarhald á lágskattasvæðum?

Þetta eru spurningar sem þau sem vinna hvítbókarvinnuna eru að fást við og ég tel að sé mjög mikilvægt að við fáum síðan hingað til umræðu. Af hverju erum við að þessu? Sumir kynnu að segja að þetta sé bara eitthvert samráð og samtal og það skipti engu máli. En þetta skiptir nefnilega mjög miklu máli því að við þurfum að svara því hvernig við ætlum að byggja hér upp traust og samkeppnishæft fjármálakerfi. Það er auðvitað búið að taka gjörbreytingum frá hruninu árið 2008. Við erum búin að innleiða hér evrópskt regluverk sem er búið að gerbreyta eðli fjármálakerfisins. En við þurfum að taka afstöðu til þess sem ekki er inni í evrópska regluverkinu.

Síðan er annað mál sem mér fannst hv. þingmaður nefna sérstaklega. Það er peningastefnan. Þá vil ég bara minna hv. þingmann á að hans eigin ríkisstjórn setti af stað vinnu við endurskoðun peningastefnunnar. Og í anda þess að vera trú því sem ég hef sagt um að vera ekki með stöðugar kollsteypur þegar nýjar ríkisstjórnir koma, mun sú nefnd ljúka sínum störfum og skila niðurstöðum. Mér skilst að þau skil verði núna um mánaðamótin maí/júní. Þá mun okkur gefast tækifæri til að ræða þær tillögur sem þar verða lagðar fram um endurskoðun á ramma peningastefnunnar.