148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:20]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að það sé ágætt fyrir okkur að reyna að átta okkur á hvert fjármálakerfið er að þróast eða ætti að vera að þróast. Ég hygg hins vegar að ekkert okkar í þessum sal geri sér fyllilega grein fyrir hvernig fjármálakerfið verður eftir 10, 15 að ég tali nú ekki um 25 ár. Ég held að það verði alveg gerólíkt því sem við búum við í dag.

Ég á mér þann draum hins vegar að kerfið verði þannig að það verði hagkvæmara og í raun óháð landamærum. Að við sem einstaklingar förum að eiga viðskipti við aðila óháð landamærum og meira að segja óháð gjaldmiðlum, eins og við getum í raun í litlum mæli gert þegar í dag. Ég hygg að ný fjármálatækni muni leiða okkur inn á nýjar brautir til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Það verður mjög áhugavert að sjá með hvaða hætti tekið verði á þessari framtíðarsýn í hvítbókinni.

En að nútímanum. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ég hef í besta falli mjög miklar efasemdir um ágæti þess að ríkið sé að vasast í rekstri fjármálafyrirtækja. Ég held að eitt stærsta verkefnið á næstu þremur, fjórum árum sé einmitt að losa alveg eignarhald ríkisins af íslenskum fjármálafyrirtækjum. Ríkið á ekki að vera að taka neina fjárhagslega áhættu. Það er engin skynsemi í því að ríkið vasist í rekstri fjármálafyrirtækja eins og gert er í dag.

Við eigum um leið að reyna að koma því til skila til samstarfsaðila okkar í EES að það sé eðlilegt (Forseti hringir.) og rétt að við fáum heimildir til þess að setja skorður við(Forseti hringir.) eignarhaldi fjármálafyrirtækja, reisa girðingar þannig að enginn einn aðili geti farið með nema einhvern ákveðinn hlut, (Forseti hringir.)10–15% o.s.frv. En þetta getum við ekki í dag.