148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

nám á atvinnuleysisbótum.

532. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru síðan kom upp mál þar sem nemandi á atvinnuleysisbótum hafði stundað nám í einu námskeiði og var gert að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem viðkomandi fékk með úrskurði frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Mig langar til að spyrja ráðherra aðeins um einmitt þá túlkun og þær forsendur sem liggja þarna á bak við, þ.e. hvaða rök liggi að baki því að undanþáguákvæði laga um atvinnuleysistryggingar eigi aðeins við nám á háskólastigi en ekki í öðrum skólastigum, t.d. á framhaldsskólastigi. Hver er afstaða ráðherra til þessarar takmörkunar?

Í lögunum segir, með leyfi forseta:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í þessu máli var viðkomandi einmitt í einungis einu námskeiði. Ég velti fyrir mér af hverju það þurfi nauðsynlega að vera bara einstakt námskeið í háskóla frekar en framhaldsskóla þegar fólk er kannski að reyna að afla sér meiri þekkingar og betri bakgrunns til að geta verið boðlegri á vinnumarkaðnum.

Hyggst ráðherra breyta þessum undanþáguákvæðum þannig að þau nái ekki einungis til náms á háskólastigi? Mér finnst áhugavert í úrskurðinum frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem segir um undanþágur frá meginreglunni, með leyfi forseta, að „þær eigi einungis við um háskólanám en nám kæranda hafi ekki verið á háskólastigi“.

Sem leikmanni í að lesa lögin finnst mér undarlegt þegar ég sé að það eigi bara við um nám á háskólastigi en mér finnst líka vera skýrt tekið fram að einstakt námskeið teljist ekki vera nám. Sú setning stendur alveg ein og sér og fyrir sínu óháð því á hvaða skólastigi það er.

Hvað varðar lögin almennt og þá túlkun úrskurðarnefndar velferðarmála á þessu og atriðinu að einstakt námskeið teljist ekki til náms spyr ég hvernig sé í rauninni hægt að réttlæta þessa niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála.