148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Í gær fór fram ráðstefna um tækifæri ferðaþjónustunnar í stafrænum heimi. Þar voru flutt fjölmörg áhugaverð erindi. Mig langar að byrja á að nýta tækifærið og hrósa Íslenska ferðaklasanum og Ferðamálastofu fyrir að vera dugleg að senda fundi sína út á netinu þannig að allir hafi tækifæri til að hlýða á fundinn þrátt fyrir að hafa ekki haft tækifæri til að vera á staðnum. Þetta mættu fleiri gjarnan taka sér til fyrirmyndar.

Meðal fyrirlesara var Doug Lansky, ráðgjafi í ferðamálum. Kom hann inn á fjölmarga þætti sem gætu gagnast bæði stjórnvöldum og íslenskri ferðaþjónustu. Hann kom m.a. inn á vandamálin sem fylgja of miklum fjölda ferðamanna, eða kannski frekar ferðamennsku sem væri í ójafnvægi, eins og hann talaði um, þar sem augljóst væri að hægt væri að dreifa ferðamönnum betur um landið. Lykilatriði væri þó að hafa annan góðan flugvöll, til að mynda á Norðausturlandi, sem opnaði möguleikana á að taka á móti ferðamönnum sem dvelja myndu í fjóra til fimm daga á svæðinu, auðvitað mjög ánægðir með ferðina, og færu svo heim í gegnum sama flugvöll.

Annar flugvöllur væri þarna lykilatriði því að á meðan allir færu í gegnum sama flugvöllinn færu líka allir á þessa hefðbundnu staði í gegnum suðvesturhornið. Eins og bent hefur verið á liggja tækifæri í að opna fleiri gáttir inn í landið. Að því þurfum við að róa öllum árum.

Herra forseti. Í dag fer fram vorráðstefna Markaðsstofu Norðurlands og Flugklasans Air 66N, undir yfirskriftinni Flogið í rétta átt. Þar verður m.a. farið yfir reynsluna af því að taka á móti ferðamönnum síðasta vetur í samstarfi við ferðaskrifstofuna Super Break og sömuleiðis mikilvægi innanlandsflugsins. Reynslan frá síðasta vetri sýnir svo ekki verður um villst að þetta er sannarlega mögulegt og að raunverulegur áhugi er á að heimsækja Norður- og Austurland án viðkomu á suðvesturhorninu. Það eru þó fjölmargir praktískir hlutir sem leysa þarf, til að mynda að bæta aðflugsbúnað, bæta aðgengi að Keflavíkurflugvelli, stækka flughlað og flugstöð á Akureyri og jafna eldsneytiskostnað á milli flugvalla. Allt eru það verkefni sem er í höndum Alþingis að leysa.