148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:20]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í skýrslu félags- og jafnréttismálaráðherra um stöðu kvenna á vinnumarkaði sem lögð var fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi er að finna áhugaverða samantekt sem tekur á þeim áhrifaþáttum sem liggja að baki launamun kynjanna. Þar er talað um kynbundið náms- og starfsval, að konur séu líklegri til að vinna hlutastörf, þær taka lengra fæðingarorlof, hverfa frekar af vinnumarkaði til að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum, skyldur heima fyrir geta dregið úr getu til að sinna launaðri vinnu. Þessum þáttum er svo lýst sem ósýnilegum hindrunum sem hefta konur í að taka að sér meiri ábyrgð og völd. Meiri ábyrgð og völd eiga svo væntanlega að leiða til hærri launa. Á þá lausnin á launamun kynjanna að felast í því að beina konum í átt að annars konar námi eða minni tíma með börnunum sínum og meira tíma á vinnumarkaði í störfum sem hafa meiri völd?

Hægt væri að færa rök fyrir því að störfin sem margar konur laðast að, störf tengd heilbrigði, velferð og menntun, séu einmitt mikilvægustu störfin í samfélaginu. Ef þessi störf væru metin að verðleikum og mikilvægi myndu kannski fleiri karlar laðast að þeim.

Hvað er dýrmætara en líf? Hvar er að finna meiri ábyrgð en að hlúa að konum sem eru að fæða nýtt líf í heiminn og taka svo á móti þessum verðmætum og vernda, ala upp og mennta? Þarna er svo sannarlega um mikið ábyrgðarhlutverk að ræða.

Þurfa konur að verða forstjórar fyrirtækja til að fá almennileg laun? Eins og það sé eitthvað merkilegra en að vera ljósmóðir? Hvað segir það okkur um samfélagið sem við höfum skapað? Ljósmæður eru algjörlega ómissandi í samfélaginu og við eigum að greiða þeim laun í samræmi við það.

Forseti. Að lokum legg ég til að við tökum upp nýja hugsun og lögum vinnumarkaðinn að þörfum fólks en ekki fólk að þörfum vinnumarkaðarins.