148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir þátttökuna í þessari góðu umræðu og ekki síður ágætum hv. þingmönnum fyrir þeirra innlegg. Sérstaklega vil ég taka undir þau viðhorf sem komu fram hjá ljósmóðurdótturinni, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, um aukin og fleiri verkefni og ábyrgð til handa ljósmæðrum, að hugsa út fyrir boxið sem sagt. Við skulum átta okkur á því að þarna eru ekki að koma inn á vinnumarkað einstaklingar sem eru að koma úr háskóla með gráðuna eina á bakinu. Þarna er yfirleitt um að ræða þrautreynt heilbrigðisstarfsfólk, hjúkrunarfræðinga sem eru búnar að vinna í allmörg ár sem bæta við sig háskólamenntun á sviði ljósmóðurfræða.

Virðulegur forseti. Ljósmæður upplifa skilningsleysi og tómlæti og kuldalegt viðmót. Dæmið um bréfið sem þær fengu í gær, á baráttudegi vinnandi fólks, ber vott um það. Það liggur fyrir að fjöldi ljósmæðra hættir að óbreyttu á Landspítala 1. júlí. Ljósmæðranemar segjast ekki ráða sig að óbreyttu að Landspítalanum í sumar. Þetta er auðvitað áhyggjuefni.

Ég spyr ráðherra í lokin hvort hann telji ekki möguleika á því, þrátt fyrir svona óheppilega stéttarfélagsaðild, að ná sátt um að aðlaga og leiðrétta kjör þessarar hreinu kvennastéttar, hreinustu kvennastéttar á Íslandi, þannig að sómi sé að og ekki fari allt á annan endann í kjarasamningsumhverfinu.

Ég beini því til ráðherra vinsamlegast að nota dagana fram undan vel og leiða samninga í höfn þannig að við getum fagnað á laugardaginn kemur á alþjóðlegum degi ljósmæðra.