148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[13:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld undirrituðu tollasamning við Evrópusambandið, ESB, um landbúnaðarafurðir haustið 2015. Samningurinn tók gildi 1. maí sl. Nú þegar samningurinn hefur tekið gildi er nauðsynlegt að ræða það í sérstakri umræðu hvaða áhrif hann mun hafa á íslenska búvöruframleiðslu. Hversu vel var staðið að samningsgerðinni og hvaða áhrif það hefur á samninginn að Bretland, okkar stærsta og besta markaðssvæði, mun hverfa úr samningnum á næsta ári, við útgöngu Breta úr ESB?

Herra forseti. Ég mun á eftir tiltaka nokkur atriði sem ég tel að sýni glögglega að ekki var nægilega vel staðið að samningsgerðinni fyrir Íslands hönd og hversu óhagstæður samningurinn er Íslandi. Í fyrsta lagi endurspeglar samningurinn ekki stærðarmun markaðanna. Markaðssvæði ESB telur um 500 milljónir manna en Ísland um 350 þúsund manns. Öll almenn sanngirnissjónarmið mæla með því í samningum sem þessum að tekið sé tillit til stærðarmunar markaða. Það var t.d. gert í samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnaðarvörur frá 1995. Það er grundvallaratriði í samningsgerð að báðir aðilar megi vel við una. Því er ekki fyrir að fara í þessum samningi.

Tökum innflutning á ostum sem dæmi. ESB fær að flytja til Íslands 230 tonn af sérostum. Og hvað er sérostamarkaðurinn á Íslandi stór? Jú, hann er 240 tonn. Þessi 240 tonn eru framleidd í Búðardal og þar starfa 25 manns. Ég spyr: Er pláss fyrir 230 tonn aukalega frá ESB inn á okkar litla markað? Svarið er nei, að sjálfsögðu ekki. Og hvað fáum við Íslendingar í staðinn? Við fáum ekkert. Við fáum ekkert að flytja af sérostum til ESB, ekki neitt. Ostainnflutningur ESB til Íslands í þessum samningi nemur 12–15% af markaðnum á Íslandi og er þá átt við almenna osta og sérosta. Útflutningur okkar til ESB er brotabrot af markaðnum í ESB. Það sjá það allir að þarna er hróplegt ójafnvægi. Við það bætist svo enn meira ójafnvægi sem er að tollfrjálsar innflutningsheimildir til Íslands á sérostum taka gildi í einum áfanga en trappast ekki inn á fjórum árum, eins og útflutningsheimildir Íslands til ESB. Undir þetta skrifaði samninganefnd Íslands. Þetta kallar hæstv. landbúnaðarráðherra tækifæri fyrir íslenskan landbúnað. Þetta kalla ég að semja af sér.

Í öðru lagi vil ég nefna sérstaklega að engin úttekt fór fram á áhrifum samningsins á innlenda búvöruframleiðslu. Það er mikill annmarki á þessum samningi. Í alþjóðlegri samningatækni er það grundvallarregla að hafa víðtækt og gott samráð við hagsmunaaðila. ESB hafði til að mynda reglulegt samráð við sína hagsmunaaðila í þessari samningsgerð, fyrir því hef ég öruggar heimildir. Íslenska samninganefndin vissi ekki hvaða áhrif samningurinn myndi hafa á íslenska búvöruframleiðslu þegar hún skrifaði undir, auk þess sem samráð við hagsmunasamtök bænda á Íslandi í samningsgerðinni var lítið sem ekkert. Það er verulega ámælisvert.

Í þriðja lagi hefur sú breyting átt sér stað eftir samningurinn var undirritaður að okkar stærsta og besta markaðssvæði, Bretland, er að ganga úr ESB og þar með tollasamningnum. Bretlandsmarkaður er annar stærsti markaður ESB með 66 milljónir íbúa. Fullkominn óvissa er um hvaða áhrif það mun hafa fyrir okkur. Það má t.d. nefna að skyrkvótinn okkar, sem er ágætur eða rúmlega 3.600 tonn, var hugsaður á Bretlandsmarkað. Við vitum ekkert hvað verður um hann. Samhliða því hefur sterlingspundið fallið um 30–35% frá því að samningurinn var gerður. Þessir þættir hafa afgerandi áhrif á útflutningsforsendur Íslands á skyri til Bretlands og má segja afdráttarlaust að um forsendubrest sé að ræða.

Herra forseti. Tollasamningurinn við ESB setur innlenda búvöruframleiðslu í mjög erfiða stöðu. Ekki var gripið til mótvægisaðgerða vegna samningsins af hálfu stjórnvalda þrátt fyrir að starfshópur á vegum landbúnaðarráðherra hafi mælt svo fyrir um. Bændur eru mjög óánægðir með samninginn og hafa miklar áhyggjur af honum enda hefur hann áhrif á íslenskan landbúnað, áhrif sem skipta milljörðum.

Í ljósi ofangreinds vil ég spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Hefur hann ekki áhyggjur af áhrifum samningsins á íslenska búvöruframleiðslu eins og forysta bænda? Hvers vegna hefur ekki verið gripið til mótvægisaðgerða? Hvaða rök mæla gegn því að óskað verði eftir því að samningurinn verði tekinn upp af nýju vegna breyttra forsendna? Og að lokum, er eðlilegt að gera samning sem þennan þar sem það hallar svo augljóslega á annan samningsaðilann, íslenskan landbúnað?