148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[13:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við áskoranir sem fylgja tollasamningi ESB og Íslands um landbúnaðarvörur. Samningurinn er staðreynd og er hluti af því viðskiptaumhverfi sem við höfum skapað okkur. Honum fylgja áskoranir og honum fylgja líka tækifæri fyrir bændur ef rétt er unnið úr aðstæðum. Það er mikilvægt að stjórnvöld og löggjafinn búi íslenskum landbúnaði þannig starfsumhverfi að þessi tækifæri nýtist.

Meðal þess sem þarf að fara í strax er að ljúka vinnu við þær átta aðgerðir sem skilgreindar hafa verið sem mótvægisaðgerðir vegna tollasamninga. Þær aðgerðir voru skilgreindar af breiðum starfshópi á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á árinu 2016. Eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir áðan þá eru tvær af tillögunum komnar til framkvæmda, þrjár eru í vinnslu og um þrjár hefur ekki enn verið tekin ákvörðun.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til þess að hraða vinnunni við þessar aðgerðir því að enn er tími til stefnu, samningarnir koma ekki að fullu til framkvæmda fyrr en árið 2021.

Ein af aðgerðunum sem er í vinnslu lýtur að gæðakröfum til innfluttra vara. Vil ég brýna hæstv. ráðherra til að fara hratt og vel í gegnum þá vinnu. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa íslenskra neytenda að sú matvara sem seld er hér á landi sé framleidd undir sömu kröfum og gerðar eru til matvælaframleiðslu hér. Þetta eru kröfur um aðbúnað búfjár, um heilbrigði búfjár, um sjálfbærni við framleiðslu og kolefnisfótspor (Forseti hringir.) við framleiðslu og á leið til neytenda. Annað væri mikill tvískinnungur.