148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[13:54]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Birgi Þórarinssyni, fyrir að vekja máls á þessu hagsmunamáli bænda og sannarlega okkar allra. Þessi tollasamningur ESB og Íslands tók gildi 1. maí sl. Hann getur sett landbúnaðinn í mjög erfiða stöðu. Það er ljótt að heyra ef ekkert samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila, eins og hv. málshefjandi kom hér inn á.

Ég vil líka minna á ályktun búnaðarþings frá því í mars. Hún var sú að búnaðarþing krefst þess að ríkisstjórn Íslands og Alþingi taki afstöðu með innlendri matvælaframleiðslu með því að styrkja tollvernd íslensks landbúnaðar. Krafan er sú að þessum samningi verði sagt upp af hálfu Íslands. Svo mörg voru nú þau orð.

Íslenskur landbúnaðarveruleiki. Heilbrigði íslenskrar landbúnaðarframleiðslu er mjög mikil. Lyfjanotkun í íslenskum landbúnaði er mjög lítil ef miðað er við notkun sýklalyfja í Evrópu. Sem dæmi má nefna þá hefur komið í ljós að meira en helmingur vörunnar er sýktur af salmonellu og kampýlóbakter í ferskum kjúklingi í kjötborðum í Evrópu.

Íslenski kúa- og sauðfjárstofninn er að mestu laus við þá dýrasjúkdóma sem Evrópulöndin eru að kljást við og eru þar landlægir. Þetta eru verðmæti sem ekki má fórna. Í staðinn er lausnin sú að flytja hingað inn miklu meira magn af landbúnaðarafurðum sem fjöldaframleiddar eru fyrir risamarkaði Evrópu með sýklalyfjaaðstoð. Á tímum þegar við tölum mikið um að minnka mengun í öllum kimum samfélagsins á að flytja vörurnar hingað alla leið með tilheyrandi mengun og rústa innlendri framleiðslu í leiðinni og taka áhættu og bera hingað sjúkdóma sem við höfum blessunarlega verið laus við hingað til.