148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[13:59]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Birgi Þórarinssyni, fyrir að hefja umræðu um þetta þarfa mál og hæstv. ráðherra fyrir að vera við umræðuna. Ég vil byrja á að nefna að forysta bænda hefur sagt að þessi tollasamningur sá fáheyrður, óbilgjarn og ósanngjarn. Horfum t.d. á Bretlandsmarkað sem er okkar besti og auðveldasti markaður, fraktin ódýrari og markaðssvæðið það næststærsta innan ESB. Besti parturinn í þessum samningi, skyrkvótinn, var einmitt hugsaður á þennan markað. Um þetta ríkir nú fullkomin óvissa vegna úrsagnar Bretlands úr ESB. Ef ekki er rétt að taka upp þennan samning við svo verulega breyttar forsendur veit ég ekki hvenær það er rétt. Það þarf ekki einhverja sérfræðinga í samningum til að sjá það, allir hljóta að sjá það. Það er himinn og haf á milli þeirra áhrifa sem þessi samningur hefur á íslenskan landbúnað eða landbúnað í ESB.

Hæstv. forseti. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er beinlínis gert ráð fyrir því að bændur fái lakari kjör ár frá ári. Bændastéttin er eina stéttin sem sætir því í þessari áætlun á meðan kaupmáttur eykst alls staðar annars staðar.