148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[14:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Svo ég haldi áfram með hugmyndina í fyrri ræðu minni þá erum við með þessa hagsmunaaðila, við erum með búvöruframleiðendur og svo er hagur raunverulegu búrvöruframleiðendanna, þ.e. einstaklinganna eða bændanna, ekkert sérstaklega góður. Við vitum það nú öll sömul, það er frekar milliliðir sem hagnast kannski mest og eru kannski mest í því að verja þetta kerfi nákvæmlega eins og það er. Stefna Pírata í þeim málum er sú að greiðslan á að ganga beint til bænda, ekki að fara upp í einhvers konar vernd fyrir milliaðila í þessu öllu saman, samkeppnisvernd o.s.frv., greiðslan eigi að ganga beint til bænda. Tollvernd eða ígildi tollverndar, sem hækkar verð fyrir neytendur og skilar sér bara að hluta til búvöruframleiðenda, er ekki rétta leiðin til þess.

Ef það væri hægt að taka ígildi þessarar verndar sem er lægra en það sem tollarnir gefa og ná þeim peningum inn annars staðar, taka tollana burtu en ná þessum peningum inn, og styðja við landbúnaðinn fyrir sömu upphæð, þá væri fjárhagsleg staða búvöruframleiðslu á sama stað, en neytendur myndu fá það sem umfram er í formi lægra matvælaverðs. Tollarnir ganga náttúrlega í ríkissjóð. Það hefur komið fram eins og ég nefndi í skýrslu formanns matvælaverðsnefndar sem gerði þetta í tíð Geirs H. Haardes — eins og ég sagði áðan er þetta ekki nýtt mál — að þær tekjur, það sem nemur tollunum, myndu skila sér til baka. Það verða aukin umsvif þegar tollarnir eru fjarlægðir, það verða meiri viðskipti og það skilar meiru í ríkissjóð en tollarnir gera. Þannig að allir græða á þessu fyrir utan það sem ég nefndi um tollvernd. Þótt ígildi hennar sé lægra í peningum talið er hún öruggari til lengri tíma, öruggari en ef upphæðin fengist í formi beinna styrkja sem ætti síðan að fjarlægja. Ég myndi segja að það væri það eina sem (Forseti hringir.) myndi tapast í þessu öllu saman, eitthvert aðeins meira öryggi, en samt sem áður er það öryggi innan mjög þröngs kerfis sem skapar alls konar (Forseti hringir.) annars konar neikvæða hvata fyrir framleiðsluna í landinu.