148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

tollasamningur ESB og Íslands um landbúnaðarvörur.

[14:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir umræðuna og þeim þingmönnum sem hér tóku þátt. Hæstv. landbúnaðarráðherra ræddi um frumkvæði að þessum samningum. Það er rétt að menn sóttu um aðgang á sínum tíma fyrir skyr og lambakjöt, þannig er þessi samningur tilkominn. En það hefur líka margt breyst á þeim tíma og það réttlætir heldur ekki að samningurinn er einfaldlega lélegur.

Hæstv. ráðherra ræddi um mótvægisaðgerðir. Það er gott að heyra að hann er að vinna að þeim. En það hefði líka verið fróðlegt ef hann hefði bara sagt okkur hverjar þær eru og hvort þær muni bera einhvern árangur.

Síðan var einnig rætt um hver hafi gert samninginn á sínum tíma. Það skiptir ekki höfuðmáli. Samningurinn var undirritaður af Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi landbúnaðarráðherra, en verulega margt hefur breyst í þessu efni síðan 2015 frá því að samningurinn var gerður, það skiptir höfuðmáli í þessari umræðu.

Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur sagt að samningurinn sé til hagsbóta fyrir neytendur. Það sagði einnig fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Gott og vel og göfugt markmið. En er það svo að ein stétt, í þessi tilfelli bændur, eigi að rýra kjör sín svo aðrir geti haft það betra? Bændur eru ekki hálaunastétt sem getur tekið á sig launaskerðingu sem nemur á annan milljarð.

Miðflokkurinn vill hag neytenda sem bestan. Miðflokkurinn styður samkeppni í landbúnaði og það gera bændur einnig. En samkeppnin verður að vera á jafnræðisgrundvelli. Það er þessi samningur ekki. Samningurinn tekur ekki tillit til samkeppnisfærni íslensks landbúnaðar í Evrópusambandinu. Samningurinn færir íslenskum bændum ekki sömu réttindi í ESB og bændur í ESB fá hér á landi.

Miðflokkurinn vill að bændur hafi það gott eins og aðrir. Í ljósi þess sem hér hefur verið nefnt er nauðsynlegt að þessum samningi verði sagt upp af Íslands hálfu og samið verði upp á nýtt. Bændasamtökin (Forseti hringir.) hafa ályktað á þann veg.

Í þessu máli sem svo mörgum öðrum verðum við að sýna staðfestu í samningsgerð, hæstv. landbúnaðarráðherra, með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, (Forseti hringir.) bænda og neytenda.