148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

113. mál
[17:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Vert er að taka fram að margir fjölmiðlar eru með sérkostnaðarlið í rekstrarreikningum sínum fyrir tilhæfulausar málsóknir á hendur þeim. Það sem er hættulegt við það er að fjölmiðlar fari að ritskoða sig. Þeir vilja ekki fjalla um ákveðna fjársterka aðila þótt þeir hafi leyfi til að gera það, af ótta við málshöfðanir.

Frumvarp okkar miðar að því að tryggja að þegar sýknað er beri sá sem leggur fram meiðyrðamálskæru sem ekki er innstæða fyrir, sjálfur kostnaðinn af þeirri ákæru en ekki fjölmiðillinn sem sýknaður er af ákærunni. Það er gríðarlega mikilvægt. Fyrir utan tímaskekkjuna sem falin er í því að hér sé virkilega enn í gildi fangelsisrefsing við tjáningu. Það er mjög alvarlegt mál. Þótt henni sé almennt ekki beitt rekur mig samt minni til þess að aðstoðarmaður ráðherra fór fram á að fangelsisrefsingu yrði beitt í ákveðnu máli sem henni líkaði ekki sérstaklega vel. Og bara það getur haft kælandi áhrif á frjálsa fjölmiðlum.

Það eina sem við förum fram á með frumvarpi okkar er að hlutur fjölmiðla í þessum málum verði réttur vegna þess að þeir verða fyrir málssóknum sem ekki er innstæða fyrir. Og svo eru þeir látnir bera kostnaðinn af því. Það er algerlega óásættanlegt miðað við hvað við gerum lítið fyrir fjármálaumhverfi fjölmiðla og fjárhagslega afkomu þeirra. Því viljum við breyta.