148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:19]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum fjallað nokkuð um þetta mál bæði í nefnd og hér í þingsal svo ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta. En eins og hv. þm. Bergþór Ólason kom inn á í sinni ræðu áðan lagði ég fram breytingartillögu við þetta mál. Hún gengur út á að gildistöku verði frestað þannig að lögin öðlist gildi 1. júní nk. Í þeim löngu og góðu umræðum sem við höfum átt um þessi mál, þar sem við höfum farið yfir mjög mörg sjónarmið og skoðað margt, voru ansi margir hv. þingmenn sem höfðu af því áhyggjur að tíminn fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar væri knappur en lýstu sig engu að síður jákvæða í garð breytinganna efnislega.

Með því að samþykkja þessa breytingartillögu gefst þar til bærum yfirvöldum tími til að klára undirbúning og hafa fjögur ár til að undirbúa næstu kosningar og taka á öllum þeim málum sem kunna að koma upp.