148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég er einn af þeim sem hafa haft miklar efasemdir um ágæti þess að fara fram með þeim hætti sem gert er og lagt er til í þessu frumvarpi. Röksemdirnar eru margar, en sú breytingartillaga sem hefur verið lögð fram, um að fresta gildistöku til 1. júní nk., gefur mér einmitt tilefni til þess að draga þá ályktun að við ættum nú kannski aðeins að hægja á okkur, ættum nú kannski aðeins að nota tímann næstu tvö til þrjú árin til að marka stefnu þegar kemur að kosningum, kosningarrétti og kosningaaldri almennt. Það hefur verið þannig hér í gegnum tíðina að Alþingi hefur borið gæfu til þess að ná sæmilegri sátt, víðtækri sátt, um breytingar á kosningalögum. Af hverju er það? Það er vegna þess að þetta er ein af grunnreglum lýðræðisins. Þess vegna höfum við gegnum söguna talið mikilvægt að þróa og þroska og breyta lögum og reglum um kosningar, en við gerum það með þeim hætti að við séum sem flest sæmilega sátt, ef ekki öll.

Þegar þetta frumvarp var á dagskrá og við hófum 3. umr. fyrir nokkrum vikum rifjaði ég einmitt upp ræðu sem Benedikt Gröndal, einn af leiðtogunum og einn af merkustu stjórnmálamönnum okkar á síðari áratugum, hélt hér í þessum sal þar sem hann lagði einmitt áherslu á hversu mikilvægt það væri að menn væru samstiga í þeim breytingum sem gerðar yrðu á leikreglum þegar verið væri að tala um að velja kjörna fulltrúa, hvort heldur er til Alþingis, til sveitarstjórna eða forseta Íslands.

Við höfum á undanförnum áratugum verið að færa kosningaaldurinn niður. Ég er einn af þeim sem taka undir að við höfum kannski farið okkur aðeins of hægt. Það kann að vera. En ég held hins vegar að það sé betra að fara hægar en hraðar eða of hratt. En við höfum hins vegar verið að veita stöðugt fleirum þau réttindi að velja kjörna fulltrúa í sveitarstjórnir, til Alþingis. En þessum réttindum, þessum sjálfsögðu réttindum, verða að fylgja önnur réttindi. Ég sé ekki hvernig við getum slitið í sundur kosningarrétt annars vegar og hins vegar sjálfræði og kosningarrétt og kjörgengi. Það er gert í því frumvarpi sem við fjöllum um hér.

Það er kannski veigamesta gagnrýni mín á þetta frumvarp, ekki endilega að við séum að lækka kosningaaldurinn vegna þess að ég er í hjarta mínu sammála því að við eigum að stefna að því að færa kosningaaldurinn niður, hvort 16 ára er akkúrat rétti aldurinn, við getum líka rætt það. En samhliða verðum við að reyna að átta okkur á því hvaða áhrif það hefur og hvort það sé ekki rétt hjá mér og mörgum fleirum að nauðsynlegt sé að stíga skrefið og færa sjálfræðisaldurinn niður um leið — bara til þess að menn hafi þá raunverulegt sjálfræði til að nýta sér kosningarréttinn sem er verið að veita þeim. Við erum ekki að tryggja það með þessu frumvarpi. Við erum heldur ekki að tryggja það að við stígum það skref að sá einstaklingur sem hefur rétt til að kjósa sér (Forseti hringir.) fulltrúa hafi um leið óskoraðan rétt til þess að bjóða sig fram í það embætti sem hann er að kjósa um.