148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:17]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, auðvitað gæti það verið skynsamlegt að ríkisstjórnin færi að vinna að samræmingu þeirra mála. Hvenær eigum við t.d. að lækka sjálfræðisaldurinn? Hvað þýðir það? Hvaða öðrum lögum þurfum við að breyta? Ég hygg að við þurfum t.d. að athuga hvort það samrýmist barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, svo dæmi sé nefnt.

Ég ætla bara að vekja athygli þingmannsins á einu. Verði þetta frumvarp samþykkt tökum við ákvörðun um að börn sem eru 12 ára í dag verði komin með kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningar eftir fjögur ár. Eitt af grunnatriðunum þegar kemur að kosningum er aðgengi frambjóðanda að kjósendum. (Forseti hringir.) Hvað ætla menn að gera? Eru menn að taka hér ákvörðun um að tryggja aðgengi væntanlegra frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum eftir fjögur ár (Forseti hringir.) að börnum sem ekki eru einu sinni fermd, hvað þá heldur meira?