148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:25]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að við hv. þm. Bergþór Ólason séum nú ágætlega samstiga í flestu, þótt ég vilji ganga aðeins lengra en hann þegar kemur að því að veita fleirum kosningarréttinn með því að lækka kosningaaldurinn og þar með sjálfræðisaldur. Ég segi: Það er ekki tilviljun að þegar Benedikt Gröndal leggur fram frumvarp árið 1965 um að kosningaaldur verði lækkaður í 18 ár, þá er í ræðu hans, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar, rauði þráðurinn að menn gefi sér góðan tíma til þess að ræða tillögu hans. Það liggi ekkert á og það sé svo mikilvægt (Forseti hringir.) að menn afgreiði málið í sátt, (Forseti hringir.) hafi nægan tíma til að mynda sér skoðun og ná (Forseti hringir.) sátt um málið. Ég skil ekki, þegar það liggur fyrir (Forseti hringir.) að það eru fjögur ár þangað til lækkunin gengur raunverulega (Forseti hringir.) í gildi, að menn séu ekki tilbúnir að skoða málið í sátt.