148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisræðu. Hv. þingmaður sagði að hann styddi frávísunartillögu hv. þm. Bergþórs Ólasonar. Mig langar aðeins að fá skýringar hjá hv. þingmanni af því að ég fæ ekki alveg orð framsögumanns frávísunartillögunnar til að koma heim og saman við sjálfa tillöguna.

Þar er kveðið á um að í ljósi umfangs málsins og sjónarmiða sem komið hafa fram sé rétt að leggja til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnar og, með leyfi forseta, „svo tími gefist til að undirbúa málið nægilega vel“. Þar er hvergi talað um þá miklu sátt sem hv. þingmaður kom sjálfur inn á í ræðu sinni. Þar er ekki talað um það sem margir hv. þingmenn hafi komið inn á, og ég held að ég fari ekki rangt með að hv. þm. Sigurður Páll Jónsson sé einn þeirra, að einnig þurfi að skoða samræmingu á réttindum hvað varðar aldur.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna er ekki kveðið á um það í frávísunartillögunni? Við lestur frávísunartillögunnar er ekki að sjá að málið eigi neitt að breytast, það eigi bara að undirbúa það betur en gert hefur verið, efnislega.

Í ljósi þess að hv. þingmaður talar um þá nauðsyn að koma á breiðri sátt og að málið fari aftur til ríkisstjórnarinnar og komi hingað inn aftur og verði afgreitt í sátt, spyr ég hvort það eigi við um öll mál að mati hv. þingmanns. Á það t.d. við um öll mál frá flokki hv. þingmanns, Miðflokknum? Munu þingmenn Miðflokksins leggja til að þeirra málum verði vísað til ríkisstjórnarinnar ef ekki verður sátt um þau hér svo hún geti unnið að breiðri sátt um þau?