148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Komið var inn þá umræðu — ég nefndi hana í fyrra andsvari mínu en heyrði ekki að hv. þingmaður kæmi sjálfur inn á hana í svari sínu — um það sem hér hefur komið fram í dag og reyndar á fyrri stigum umræðunnar, þ.e. að samræma bæri þann aldur sem ungmenni öðluðust réttindi á. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji nauðsyn á því. Og ef svo er langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé þá ósammála samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, en í 5. gr. er kveðið á um að börn njóti sívaxandi réttinda miðað við aldur og þroska.

Er hv. þingmaður ósammála barnasáttmála Sameinuðu þjóðunum um það? Ég heyrði hv. þingmann segja að þau sjónarmið hefðu heyrst að láta ætti unga fólkið í friði. Þess vegna langar mig líka að spyrja hv. þingmann um þá stöðu sem uppi er í dag, nefnilega þá að börn og ungmenni öðlast ýmis réttindi áður en þau fá kosningarréttinn, fyrir 18 árin. Til dæmis ráða þau öllu sjálfsaflafé og gjafafé, foreldrar þeirra geta ekki sagt þeim hvað á að gera við þá peninga og við 16 ára aldur öðlast börn réttindi til að skrá sig í trúfélög, þau geta tekið ákvörðun um að fara í fóstureyðingu og þau geta tekið ákvörðun um heilbrigðisþjónustu. Þau geta með öðrum orðum hafnað heilbrigðisþjónustu ef þau vilja. Og hv. þingmaður talaði um að þetta væri mjög stórt mál. Að taka ákvörðun um að hafna heilbrigðisþjónustu getur verið gríðarlega stórt mál, það getur einfaldlega verið spurning um líf og dauða hjá viðkomandi einstaklingi. Og þann rétt veitum við 16 ára börnum. Er hv. þingmaður á móti því og vill hækka hann þann aldur þegar ungmenni öðlast þessi réttindi, til samræmis við 18 ára kosningaaldur?