148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

heimaþjónusta Karitas.

[13:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst af öllu er því til að svara að mitt leiðarljós í öllum viðfangsefnum af þessu tagi er að gæta að því að þjónustan skerðist ekki. Það er auðvitað markmið númer eitt, tvö og þrjú og er oft ansi krefjandi þegar um er að ræða samninga við aðila og samningar á vegum Sjúkratrygginga Íslands um kaup á heilbrigðisþjónustu eru yfir 200 eins og málin standa núna.

Karitas hefur sagt samningnum upp eins og málin standa núna og raunar óskað eftir viðtali við ráðuneytið um stöðuna sem upp er komin. Það sem heyrir undir ráðuneytið og mitt embætti er að tryggja að ef samningur Karitas rennur út sé tryggt að Landspítalinn og heilsugæslan taki við keflinu og ekkert rof verði á þeirri þjónustu. Það er auðvitað meginmarkmiðið.

Við þurfum að fara yfir stöðuna með okkar sérfræðingum. Ef hv. þingmaður er að velta fyrir sér kostnaði sem hlýst af þjónustunni ef niðurstaðan verði sú að hún færist til Landspítala og/eða heilsugæslunnar yrðu það náttúrlega þeir fjármunir sem núna eru í samningunum.