148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

heimaþjónusta Karitas.

[13:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Verkefni Sjúkratrygginga Íslands er að sinna tilteknum samningum, þar á meðal þeim samningi sem hér er undir. Það er ekki svo að það verklag sé viðhaft að farið sé til ráðherra með hvern einasta samning og það hvaða rammi er þar undir; ekki með þennan samning frekar en aðra, enda væri ljóst að sú sem hér stendur væri þá ekki að gera mikið annað. Sjúkratryggingar Íslands hafa tiltekið hlutverk og ber að sinna því og gera það. Hins vegar er það svo að við höfum fengið í hendur skýrslu frá Ríkisendurskoðun um að svo kunni að vera að kaupum á heilbrigðisþjónustu sé ekki eins vel háttað og við vildum sjá. Við viljum sjá að það sé gert með markvissum hætti.

Ef hv. þingmaður sér stefnubreytingu myndi ég kannski vilja orða það sem svo að stefnubreytingin væri að mínu viti fólgin í því fyrst og fremst að freista þess að hafa heildarmyndina undir í öllum mínum ákvörðunum. Það er það sem ég er að reyna að gera. Og tryggja fyrst og fremst þjónustuna og samfellu í henni og öryggi sjúklinga.