148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

Evrópusambandið og skýrsla ráðherra um EES-samninginn.

[13:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef nú átt von á ýmsum spurningum í þingsal en átti ekki alveg von á því að ég yrði spurður að því hvort ég hefði áhuga á því að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Maður reynir að búa sig undir ýmislegt en ég velti fyrir mér hvað það er sem gerir að verkum að einhverjum hv. þingmanni detti þetta í hug.

Varðandi einstaka orðalag þá þekkir hv. þingmaður það náttúrlega vel hvernig var gengið frá þessum málum á sínum tíma enda var hann þá utanríkisráðherra. Ég hef ekki fundið neinn áhuga hjá samstarfsflokkum mínum á því að daðra við aðild að Evrópusambandinu, hvað þá að ganga eitthvað lengra. Ég hélt að ég hefði talað frekar skýrt þegar kemur að því hvaða skoðun ég hef á aðild að Evrópusambandinu en það er augljóst að maður þarf að tala eitthvað skýrar en maður hefur gert.

Til að upplýsa hv. þingmann teldi ég að það væri afskaplega óskynsamlegt fyrir Ísland að gerast aðili að Evrópusambandinu. Þegar hv. þingmaður skoðar þessa skýrslu sér hann að það hafði alvarlegri afleiðingar í för með sér en fólk er meðvitað um að fara í þessa vegferð. Við reynum að bæta úr því eins og mögulegt er. En ef einhver velkist í vafa um það að sá sem hér stendur sé ekki áhugasamur um að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu er það mér bara frekari hvatning til að tala skýrar um þessi mál. Ég skal reyna að gera það.