148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

frumvarp um persónuvernd.

[14:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svarið og bíð spenntur eftir því að komast að því hvað næstu dagar eru. Þingið er nú að fara í hlé um nokkra hríð en ég skil það þannig að við séum að tala um á næstu tveimur, þremur dögum. Ég óska þá eftir að hæstv. ráðherra útskýri það betur ef svo er ekki.

En ráðherra kom inn á merkilegan hlut sem er sú lausn sem menn finna á stofnanafyrirkomulagi málsins. Mjög margir alþingismenn, ég þar á meðal, eru mjög áhugasamir um stjórnarskrá, tengsl stjórnarskrárinnar og EES-samningsins. Mér finnst þess vegna skjóta svolítið skökku við ef það er ætlast til þess að Alþingi fjalli um þetta fyrirkomulag í einhvers konar flýtimeðferð eða án þess að fá nægilegt svigrúm til að ræða hina svokölluðu einnar stoðar lausn. Nógu mörg stór orð hafa fallið hér í þessum sal og utan hans (Forseti hringir.) um það hversu alvarlegt það væri að Ísland væri að beygja sig undir yfirgang Evrópusambandsins á ýmsum sviðum. (Forseti hringir.) Þess vegna finnst mér skjóta skökku við hvað okkur er ætlaður skammur tími til að fara vel og vandlega yfir þessi mál.