148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

neyðarvistun ungra fíkla.

[14:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst leitt að valda hv. þingmanni vonbrigðum, en nú er komið að því að Landspítalinn – háskólasjúkrahús, Barnaverndarstofa, umboðsmaður barna, velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborg, heilsugæslan, Geðhjálp, Olnbogabörn og SÁÁ munu setjast saman yfir málið. Það er þá væntanlega það sem hv. þingmaður kallar samráðsferli og þykir ekki nógu gott. En markmiðið er að ná saman vinnustofu, í staðinn fyrir að skapa einhvern starfshóp sem ætti að skilja eftir langan tíma, þar sem þessi hópur myndi setjast yfir það verkefni á vinnustofu í einn dag í lok maí að setja saman tillögur til lausna.

Ég er sammála hv. þingmanni að þetta er verkefni sem getur ekki beðið og ekki síst núna þegar fyrir liggur yfirlýsing frá SÁÁ um það að þau muni ekki sinna ólögráða einstaklingnum frekar, þó að þau hafi að vísu talað um að þau myndu brúa bilið ef til þess kæmi.

Við höfum lagt áherslu á það, bæði ég og félagsmálaráðherra, að hérna sé um að ræða aðkallandi mál. Við höfum sett það ofarlega á dagskrá. Við erum með fjöldamörg verkefni til þess að horfast í augu við það og bregðast við því. Það eru bæði verkefni sem eru hugsuð í bráð og í lengd vegna þess að þessi mál verða ekki leyst með einhverjum upphrópunum eða upphlaupum.

Ég vona, virðulegur forseti, að sú vinnusmiðja sem ég gerði hér grein fyrir sé leið til lausnar, vegna þess að þarna verða allir aðilar að koma að borðinu og allir þessir aðilar koma að borðinu til þess að skiptast á skoðunum um raunveruleg verkfæri, raunverulegar aðgerðir því að við erum löngu komin fram yfir það að þetta snúist um stefnumótun.